Sagan

Saga Áss

Upphaf Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði má rekja allt aftur til ársins 1946, en á aðalfundi Sýslunefndar Árnessýslu það ár var eftirfarandi samþykkt:

„Sýslufundur Árnessýslu, haldinn að Selfossi dagana 12. - 16. mars 1946, ályktar að beita sér fyrir stofnun elliheimilis í sýslunni eins fljótt og verða má, og samþykkir að veita til þess 50.000 krónum sem byrjunarframlag úr sýslusjóði. Ennfremur verði send tilmæli frá sýslunefndinni til allra sveitarstjórna í sýslunni að hefjast þegar handa um söfnun fjár til heimilisins, hver í sinni sveit, sem ætlast er til að nemi minnst 30 kr. af hverjum íbúa sveitarinnar þetta ár.
Þá verði á annan hátt unnið að fjáröflun til heimilisins, með hvatningu til félagsheildar og einstaklinga um að styðja þetta velferðarmál héraðsins með framlögum þar til.
Loks kýs nefndin á þessum fundi sínum 3 menn til að vinna að undirbúningi málsins, og þá fyrst og fremst til að gera tillögur um stað fyrir heimilið, sem hafi í fyrsta lagi, nægan jarðhita og í öðru lagi hafi fullnægjandi landrými."

Í þessa nefnd, sem hefur síðan verið kölluð Elliheimilisnefnd Árnessýslu, voru kosnir þeir Sigurður Kristjánsson kaupmaður Eyrarbakka, Dagur Brynjúlfsson hreppstjóri Gaulverjabæ og Eiríkur Jónsson oddviti Vorsabæ.

Þessi nefnd skoðaði strax um haustið þrjá mögulega staði til að byggja og starfrækja elliheimili. Þeir voru Laugarás, Hveragerði og Selfoss. Leist nefndarmönnum strax best á Selfoss og fór nefndin fram á það við Kaupfélag Árnesinga að fá lóð undir elliheimili í landi Laugardæla. Var það auðsótt mál hjá Kaupfélaginu og fékkst lóðin þegar afhent í maí árið 1948 án endurgjalds.

Eigi að síður skoða nefndarmenn áfram möguleika á, að elliheimili verði reist í Hveragerði. Að þeirra mati kom eingöngu jörðin Reykjakot til greina, og voru margar ástæður að baki því mati. Nefndarmenn höfnuðu þó þessum valkosti, meðal annars vegna áforma um jarðboranir og gufuvirkjun í Reykjakoti og í framhaldi af þeim stórframkvæmdir og uppbygging iðnaðar. Þessi áform hafa reyndar enn ekki komið til framkvæmda rúmlega 50 árum síðar.

Elliheimilisnefndin heldur all marga fundi og undirbýr byggingu elliheimilis af kostgæfni og sem fyrr er áætlað að byggja heimilið á Selfossi. Það er síðan í apríl 1950, að Magnús Ágústsson læknir í Hveragerði býður nefndinni íbúðarhús sitt að Hverahlíð 17 til kaups. Þetta hús þótti koma til greina, að minnsta kosti til bráðabirgða, meðan verið væri að byggja elliheimili á Selfossi.

Sumarið 1951 kom til tals á milli Guðjóns A. Sigurðssonar í Gufudal og Gísla Sigurbjörnssonar forstjóra Grundar, að Grund tæki að sér að reka elliheimili í Hveragerði fyrir elliheimilisnefndina. Eftir all marga fundi á milli nefndarinnar og Gísla varð úr samkomulag um rekstur elliheimilis í Hveragerði. Undir þennan samning var skrifað 21. september 1951 og formlega hófst rekstur heimilisins þann 26. júlí árið 1952.

Heimilismenn voru 13 í upphafi en þeim fjölgaði fljótt. Sýslunefndin lagði fram auk Hverahlíðar 17, þrjú önnur hús, en Grund keypti síðan og byggði fleiri hús á næstu árum.

Veruleg aukning verður á starfseminni í Ási á árunum 1960 - 1980 og fjölgaði heimilismönnum jafnt og þétt. Mörg hús voru keypt við Frumskóga, Bláskóga, Hverahlíð og Bröttuhlíð. Byggðar voru 15 hjónaíbúðir við Bröttuhlíð og Klettahlíð. Föndurskálinn í Frumskógum var byggður, auk þess sem verulegar endurbætur voru gerðar á þeim húsum sem voru keypt. Upp úr 1980 fækkar heimilismönnum í Ási nokkuð allt til ársins 1995, en fer síðan smám saman fjölgandi eftir það.

Þegar heimilismönnum hafði fækkað, var nokkuð um laus hús í Ási. Þessi hús voru notuð til sumardvala fyrir aldraða. Sumardvalirnar voru þannig skipulagðar, að kirkjusóknir, verkalýðsfélög, líknarfélög og önnur félög með aldraða innan borðs fengu boð um að senda til Hveragerðis 8 manns í 10 daga dvöl. Í Ási fékk fólkið síðan fæði og annan viðurgjörning, en sá sjálft um að koma sér austur og til baka. Reyndar kom þetta fólk alls staðar af landinu, þótt flestir kæmu af höfuðborgarsvæðinu. Þessara sumardvala hafa þúsundir Íslendinga notið og eiga vonandi bjartar minningar héðan. Nú seinni árin hafa þessar sumardvalir lagst af, þar sem ekkert húspláss er laust í Ási.

Garðyrkjustöð og trésmíðaverkstæði er ef til vill ekki hefðbundinn hluti af rekstri elliheimilis. Engu að síður hefur Ás rekið hvort tveggja um áratuga skeið. Á trésmíðaverkstæðinu hafa ýmsir hlutir verið smíðaðir bæði fyrir Grund og Ás. Má þar nefna glugga, hurðir, innréttingar og fleira. Í garðyrkjustöðinni er grænmeti ræktað, afskorin blóm og sumarblóm og eru þessar afurðir nýttar af báðum heimilum. Þá hafa þeir heimilismenn í Ási, sem það vilja og geta, unnið létt störf í garðyrkjustöðinni. Þessi þáttur starfseminnar er mjög mikilvægur og nauðsynlegt að geta boðið heimilisfólkinu upp á þessi fjölbreyttu störf. Þá hafa afskornu blómin og sumarblómin sett hlýjan og fallegan svip á Grund og Ás.

Rannsóknastofnunin Neðri Ás var stofnuð í lok sjöunda áratugarins. Hlutverk hennar er að sinna ýmiss konar rannsóknum sem varða íslenska náttúru og fleira því tengdu. Alls hafa verið gefin út yfir 50 vísindarit og skýrslur á vegum stofnunarinnar. Samstarf Neðri Áss, Háskóla Íslands, fyrirtækisins Prokaria, Hveragerðisbæjar, Heilsustofnunar N.L.F.Í., Sunnlenskrar orku og Garðyrkjuskóla ríkisins um rekstur Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands í Hveragerði hefur staðið yfir undanfarin ár. Þannig hefur þáttur Neðri Áss sem vísindastofnunar verið tryggður til framtíðar. Þetta samstarf hefur gengið með ágætum og starfsemin er í dag rekin í húsnæði rannsóknarstofnunarinnar að Heiðmörk 34 í Hveragerði.

Þessi mikla uppbygging í Ási er fyrst og fremst einum manni að þakka, Gísla Sigurbjörnssyni forstjóra. Með mikilli vinnuhörku, útsjónarsemi og óbilandi trú á Hveragerði náði hann að virkja aðra með sér í þetta uppbyggingarstarf. Ég tel, að í huga hans hafi Hveragerði verið fyrsta flokks bær fyrir starfsemi þessa. Þá má ekki gleyma konu hans, frú Helgu Björnsdóttur, sem stóð sterk við hans hlið alla ævi og studdi hann til góðra verka. Frá upphafi hefur snyrtimennska einkennt starfsemina í Ási. Þar kemur fyrst og fremst til áhersla Gísla á fagurt umhverfi og góða umgengni. Á göngu sinni um garðana í Ási týndi hann ávallt upp það rusl, sem varð á vegi hans, og setti það í vasann eða fann því stað í ruslafötu.

Ein af ástæðum þess, að Grund var falið rekstur elliheimilis í Hveragerði var sú, að Grund hafði á þeim tíma hjúkrunardeildir í Reykjavík. Aðstaðan í Hveragerði , þ.e. mörg lítil hús, olli því að þegar fólkið þurfti á aukinni umönnun að halda þá fékk það pláss á hjúkrunardeildunum á Grund. Þannig var heimilisfólkinu í Ási tryggð örugg umhyggja allt til æviloka. Þannig hafa mörg hundruð heimilismenn í Ási notið umhyggju og hjúkrunar síðust æviárin á Grund. Upp úr 1990 var farið að huga að byggingu hjúkrunarheimilis í Hveragerði. Formleg beiðni um leyfi til byggingar og reksturs 26 rúma hjúkrunarheimilis var síðan send til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis í júní 1995. Í janúar 1997 veitir ráðuneytið, í samráði við fjármálaráðuneytið, Grund leyfi til að byggja og reka 26 rúma hjúkrunarheimili. Fyrstu skóflustungu að heimilinu tók frú Helga Björnsdóttir, þáverandi stjórnarformaður Grundar, í maí sama ár. Byggingarframkvæmdir hófust um sumarið. Framkvæmdum var að fullu lokið í nóvember 1998 og var heimilið vígt þann 1. desember af þáverandi heilbrigðisráðherra Ingibjörgu Pálmadóttur. Auk hjúkrunardeildarinnar eru í byggingunni skrifstofur Áss, hárgreiðslustofa, fótsnyrting, sjúkraþjálfun og verslun. Þessir þjónustuþættir eru fyrir alla heimilsmenn í Ási, en áður voru þessir þjónustuþættir á sitt hverjum staðnum.

Í dag eru 156 heimilismenn í Ási, 26 á hjúkrunarheimilinu, 80 dvalarrými og 50 geðdeildarrými sem rekin eru í samvinnu við geðdeild Landspítalans. Það samstarf hófst á sjöunda áratugnum og hefur í alla staði gengið mjög vel. Geðlæknir og geðhjúkrunarfræðingur á vegum Landspítalans sjá um hluta þjónustunnar við þessa einstaklinga og læknir, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk í Ási sér um annað sem upp á vantar. 
Margt gott starfsfólk hefur unnið lengi í Ási, og starfsmannavelta er tiltölulega lítil miðað við heimili í svipuðum rekstri.

Framtíð Áss er björt. Möguleg uppbygging í framtíðinni er á tveimur stöðum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að stækka hjúkrunarheimilið. Viðbygging við það yrði í austurátt þar sem skrifstofur Hveragerðisbæjar eru í dag. Grund hefur kauprétt á húsinu frá árinu 2012 til ársins 2014 og myndi það hús þá verða rifið og 34 rúma hjúkrunardeild byggð í staðinn. Ekki þyrfti að byggja aðra þjónustuþætti svo sem hárgreiðslu, fótsnyrtingu, sjúkraþjálfun og skrifstofu, þar sem sú aðstaða er þegar til staðar. Þessi byggingaráfangi yrði því mjög hagstæður er varðar kostnað á hvert hjúkrunarrými. Ekki veitir af fleiri hjúkrunarrýmum, því biðlistinn eftir slíkum plássum er langur og lengist ár frá ári. Í öðru lagi má nefna, að við Laufskóga og Frumskóga hefur verið deiliskipulögð bygging yfir 20 íbúðaeininga, en ekki er ákveðið, hvort eingöngu verði um einstaklingsíbúðir eða hjónaíbúðir að ræða. Þessar íbúðir munu síðan tengjast þjónustukjarnanum í Ásbyrgi.