Fréttir

Hænurnar komnar heim

Loksins eru þær komnar heim hænurnar sem dvöldu í góðu yfirlæti í vetur í Ásahreppi. Hænurnar eru búsettar í hænsnahöll á lóðinni í Bæjarási í Ási. Það var tekið vel á móti þeim þegar komið var með þær úr sveitinni

Sumarhátíð í garði Grundar

Það var bjart yfir heimilisfólki og aðstandendum í gær þegar sumarhátíð var haldin í garði Grundar. Veðrið lék við okkur. Hoppukastalar, húllahopp og allskyns skemmtun fyrir ömmu-, og afabörn sem og langömmu-, og langafabörnin. Heimilisfólk bauð ungviðinu íspinna og Jón Ólafur gekk um með nikkuna og gladdi með nærveru sinni. Það sannaðist að Grund á sannkallaðan gimstein í þessum stóra garði sem snýr í suður.

Sumarhátíð á Grund

Sumarhátíð í Mörk

Má bjóða þér í saumaklúbb?

Það er alltaf jafn gaman í saumaklúbbunum hér á Grund. Það lifnar yfir heimiliskonunum og umræðuefnin eru jafn fjölbreytt og konurnar eru margar. Dásamlegar stundir sem þær bjóða uppá Auður og Valdís hér í vinnustofunni á Grund.

Litrík blómaker í Ási

Fólk lét ekki úrhellisrigninguna í Hveragerði spilla fyrir sér ánægjunni við að velja sér falleg blóm til að setja á tröppurnar hjá sér….

Lokað vegna sumarleyfa

Skrifstofa íbúa 60+ verður lokuð dagana 24. júní - 11. júlí og 30. júlí - 13. ágúst 2021 vegna sumarleyfa. Vinsamlegast leitið upplýsinga í Boggubúð.

Vel mætt á kóræfingu

Heimilisfólk er svo sannarlega ánægt með að allur Grundarkórinn megi nú koma saman á ný

Það er gott að hafa eitthvað fyrir stafni

Útivera og að rótast í mold er fín blanda og heimilisfólkið í Bæjarási naut þess virkilega nú í vikunni þegar það var að pota niður útsæði og koma jarðarberjaplöntum í kassa. Það er nefnilega gott að hafa eitthvað fyrir stafni, sama hvaða aldurskeiði maður er á

Ótímabærar áhyggjur stjórnvalda

Kristján X konungur Dana og Íslendinga á þeim tíma, undirritaði skipulagsskrá Grundar árið 1925. Samkvæmt henni er sú skylda skýr, að ef einhver hagnaður myndast af starfseminni skuli honum varið til áframhaldandi uppbyggingar heimilisins. Engin heimild er til þess að greiða arð eða verja hagnaði í óskylda starfsemi. Síðan er bráðum liðin heil öld af farsælum rekstri Grundarheimilanna og við þetta ákvæði í skipulagsskránni, sem að mestu leyti hefur verið óbreytt frá upphafi, hefur ávallt verið staðið. Þess vegna hefur umfang starfseminnar vaxið hægt og bítandi. Hin síðustu ár hefur reyndar því miður ekki reynt á skilyrðið um ráðstöfun hagnaðar - taprekstur þorra hjúrunarheimilanna hefur verið viðvarandi árum saman og Grundarheimilin eru þar engin undantekning. Allir finna fyrir þeirri naumhyggju sem einkennir fjárveitingar frá stjórnvöldum enda þótt þau hafi lögboðnar skyldur gagnvart þessari þjónustu við þá elstu og veikustu. Stjórnvöld hafa auglýst eftir aðilum sem taka vilja við rekstri hjúkrunarheimila sem sveitarfélögin hafa gefist upp á að reka áfram vegna lágra daggjalda og viðvarandi tapreksturs. Er það tekið sérstaklega fram að það sé æskilegt að viðkomandi aðilar nálgist verkefnið á félagslegum grunni, t.d. eins og Grund, og að mögulegum hagnaði verði ekki varið í óskyld verkefni. Þegar rekstur og þjónusta hjúkrunarheimilanna er annars vegar geta stjórnvöld þessa dagana fundið sér margt þarfara til að hafa áhyggjur af' en mögulegum hagnaði af rekstri hjúkrunarheimila. Þau gætu t.d. einbeitt sér að lausnum á viðvarandi taprekstri þeirra, menntunarstigi starfsmanna, þjónustustigi og magni umönnunar, óleystra húsnæðismála, afleiðingum af styttingu vinnuvikunnar, löngum biðlistum og áfram mætti lengi telja. Áhyggjur af mögulegri gróðamyndun komast ekki einu sinni á topp tíu listann. Vonandi rennur sú stund engu að síður upp, að ráðstöfun hagnaðar verði á nýjan leik á meðal verkefna stjórnenda hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Til þess þarf mikla viðhorfsbreytingu. Ekki hjá þjóðinni heldur kjörnum fulltrúum hennar á þingi. Hávær umræða í fjölmiðlum og sem betur fer einnig innan veggja Alþingis hefur leitt til þess að örlítið er þessa dagana verið að koma til móts augljósar nauðþurftir hjúkrunarheimilanna. Reynt er að stoppa í götin með fjármagni sem vissulega fleytir rekstrinum áfram um sinn en betur má þó ef duga skal. Langt er í frá, að daggjöld hafi fylgt launaskriði undanfarinna ára, enda þótt launaliðurinn sé um 80% af rekstrarkostnaði. Stytting vinnuvikunnar er nú komin til fullrar framkvæmdar og ljóst er að henni fylgir mikill kostnaðarauki. Við á Grund höfum barist fyrir því í mörg ár að fá greidda eðlilega húsaleigu fyrir það húsnæði sem við leggjum undir hjúkrunarheimili Grundar og Áss, en við því hefur verið daufheyrst með alls kyns undanbrögðum. Við höfum einnig bent á miklar hækkanir á lyfjakostnaði og einnig aukna umönnunarþörf vegna hækkandi aldurs og um leið verri heilsu heimilisfólks okkar. Svo virðist sem það örli á auknum skilningi stjórnvalda á þessum þáttum. Einhvers staðar í enda ganganna virðist því vera örlítil ljóstýra. Það er góð tímasetning þegar haft er í huga að sumarsólstöður, og um leið bjartasti dagur ársins, eru innan fárra daga. Vonandi er að við eigum bæði sólríkt og skilningsríkt sumar framundan og að skammdegið sem grúft hefur yfir hjúkrunarheimilisrekstrinum alltof lengi komi aldrei aftur, enda þótt það sé árvisst að það hausti með haustinu eins og einhver sagði. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna