Mannauðsstefna

Val starfsmanna og ráðningar

 
 
 
Lögð er áhersla á trúnað og traust í ráðningum. Leitast er við að fá til sín hæft, jákvætt og metnaðarfullt starfsfólk sem sýnir frumkvæði. Við ráðningu nýrra starfsmanna er mikilvægt að vinnubrögð séu hlutlaus og fagleg. Lögð er áhersla á að starfsmannahópurinn sé fjölbreyttur. Mikilvægt er að móttaka nýrra starfsmanna sé markviss og staðið sé vel að nýliðafræðslu, þjálfun og aðlögun nýrra starfsmanna. Skýr og raunhæf viðmið eru fyrir frammistöðu í starfi, í samræmi við starfslýsingar.

Fræðsla og símenntun

 
 
 
Starfsfólki er gefinn kostur á að sækja námskeið, fræðslu og símenntun innan heimilanna sem utan með það að markmiði að auka faglega hæfni, þekkingu og möguleika á að þróast í starfi. Starfsfólk er hvatt til þess að kynna sér fræðslu og símenntun sem er í boði og taka þannig ábyrgð á eigin þekkingu og færni. Grundarheimilin taka þátt í greiðslu námskeiðakostnaðar starfsmanna en jafnframt er starfsfólki bent á að sækja um styrki í starfsmenntunarsjóðum viðeigandi stéttarfélaga.

Hvetjandi stjórnun

 
 
 
Lagt er upp með drífandi og hvetjandi samskipti og uppbyggilegt viðmót milli stjórnenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að stjórnendur búi yfir leiðtogahæfni og sýni fagmennsku í starfi. Mikilvægt er að starfsfólk hafi gott aðgengi að stjórnendum og að skilvirkt upplýsingaflæði ríki þeirra á milli. Ábyrgð og verkferlar eiga að vera skýrir svo starfsfólk fái að nýta hæfileika sína og faglega þekkingu í starfi. Áhersla er lögð á markvissa endurgjöf þar sem hrósað er fyrir vel unnin störf og leiðbeint um það sem betur má fara.

Starfsandi

 
 
 
Lögð er áhersla á góðan starfsanda sem byggir á virðingu, umburðarlyndi og jákvæðu viðmóti, samanber samskiptastefnu heimilanna. Á Grundarheimilunum ríkir starfsumhverfi sem styður við andlega og líkamlega vellíðan starfsfólks. Hvetjandi samskipti eru höfð að leiðarljósi þar sem tekið er vel í nýjar hugmyndir. Einnig er lögð áhersla á að traust og samheldni ríki innan starfshópsins. Gerðar eru reglulegar mælingar og greiningar á starfsánægju.

Vinnuvernd og heilsa

 
 
 
Hugað er að öryggi, heilsu og aðbúnaði starfsmanna. Einelti, ofbeldi, kynbundið ofbeldi, kynferðisleg áreitni og fordómar eru ekki liðnir innan heimilanna. Ef grunur leikur á slíku er unnið samkvæmt viðbragðsáætlun Grundarheimilanna þar sem tekið er á slíkum málum á öruggan og markvissan hátt. Boðið er upp á heilsustyrk einu sinni á ári. Starfsmönnum er gert kleift að samræma vinnu og einkalíf og tekið er tillit til aðstæðna starfsmanna hverju sinni.

Jafnrétti

 
 
 
Stuðlað er að jöfnum tækifærum, m.a. óháð kyni, aldri, kynhneigð eða kynþætti. Með virkri jafnréttisstefnu er stuðlað að því að Grundarheimilin nýti hæfileika og færni starfsfólks á sem skilvirkastan hátt, þeim sjálfum og heimilinu til hagsbóta. Gætt er að jafnrétti í ráðningum og eru Grundarheimilin með virka jafnlauna- og jafnréttisstefnu og vottað jafnlaunakerfi.