Fréttir

Réttardagurinn

Á mánudaginn var réttardagur Grundarheimilanna. Íbúar íbúða 60+ lögðu leið sína í matsalinn í hádeginu í dýrindis íslenska kjötsúpu. Margir mættu í lopapeysu eða í lopaflík og var mikil réttarstemning. Gísli Páll forstjóri sagði smala sögur og var með fjórhjólið sitt í anddyrinu ásamt öllum þeim búnaði sem hann notar við smalamennskuna. Þökkum samveruna.

Vöfflukaffið farið af stað aftur hjá íbúum íbúða 60+

Fyrsta vöfflukaffið eftir sumarfrí var á mánudaginn. Það var góð mæting og mikil gleði meðal íbúa með að kaffið sé byrjað aftur. Allir íbúar eru velkomnir á mánudögum kl. 14:30-15:30 í Kaffi Mörk.

Sumarferð íbúa 2022

Hin árlega sumarferð íbúa var í síðustu viku. Farið var með rútu frá Mörkinni og keyrt austur fyrir fjall. Fyrsta stopp var í Forsæti í Flóahreppi en þar er gallerý þeirra hjóna Ólafs Sigurjónssonar og Bergþóru Guðbergsdóttur. Í hádeginu var komið við í Ási í Hveragerði þar sem Gísli Páll tók á móti hópnum og snæddur var hádegisverður, en það var einnig keyrt um bæinn og kíkt upp í Reykjadal. Ferðinni var svo heitið í Lindina á Laugarvatni í kaffi. Á heimleið var keyrt um Lyngdalsheiði. Fararstjóri ferðarinnar var Hörður Gíslason. Takk allir sem tóku þátt í þessum degi með okkur.

Fiskidagurinn litli 2022

Fiskidagurinn Litli var haldinn í Mörk í síðustu viku við góðar undirtektir. Fjölmargir íbúar lögðu leið sína í veisluhöldin. Boðið var upp á matarmikla fiskisúpu og ofnbakaðan fisk ásamt ís í eftirrétt. Fiskurinn var eins og alltaf í boði Samherja. Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins Mikla á Dalvík ásamt Friðriki V komu í heimsókn og tóku þátt í deginum með okkur. Við fengum flotta tónlistarmenn til að flytja ljúfa tóna fyrir okkur en það voru þeir Eyjólfur Kristjánsson og Friðrik Ómar. Viljum við þakka öllum kærlega fyrir komuna. Hlökkum til Fiskidagsins Litla á næsta ári.

High Tea veisla

Á mánudögum hefur verið boðið upp á vöfflukaffi í kaffihúsinu okkar fyrir íbúana. Nú er það komið í sumarfrí og var ákveðið að hafa síðasta vöfflukaffið með öðru sniði. Við slógum upp eðal "high tea" veislu með dásamlegum veitingum. Það var góð stemning og vel mætt í þennan síðasta hitting fyrir sumarfrí en vöfflukaffið mun fara aftur af stað í lok ágúst.

Jóhanna Ásdís frá Namibíu

Jóhanna Ásdís Þorvaldsdóttir kom í heimsókn til okkar og sagði frá 7 ára búsetu sinni í Namibíu. Hún sýndi ýmsa muni frá dvöl sinni sem var einstaklega fróðlegt og skemmtilegt að sjá. Takk fyrir að koma til okkar Jóhanna Ásdís og deila reynslu þinni.

Guðrún Gísladóttir í heimsókn

Guðrún Gísladóttir fyrrum forstjóri Grundar kom í heimsókn til okkar í Mörkina. Íbúar hittust í samkomusalnum okkar Mýrinni og tóku á móti Guðrúnu. Hún sagði frá sögu Grundar en á þessu ári fagnar Grund 100 ára afmæli. Við viljum þakka Guðrúnu kærlega fyrir komuna.

Uppskeruhátíð hjá kórum Grundarheimilanna

Nýverið var sannkölluð uppskeruhátíð hjá kórunum í Mörk og á Grund en kórarnir sameinuðust og héldu í vorferð. Ferðinni var heitið í Ás í Hveragerði þar sem sungið var fyrir heimilismenn og lífsins notið í sól og blíðu. Frábær ferð þar sem tónleikagestir nutu sem og kórarnir.

Púttvöllurinn opinn

Púttvöllurinn hefur verið opnaður á ný. Í tilefni af því hittist pútthópurinn í síðustu viku og tók saman fyrsta pútt ársins.

Gleðilegt sumar

Við óskum ykkur gleðilegs sumars með þökk fyrir veturinn sem er að líða.